Verkfærakista loftslagsvænni sveitarfélaga var opnuð í dag. Samband íslenskra sveitarfélaga hafði umsjón með gerð verkfærakistunnar, sem var unnin fyrir styrk frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu og í samráði við Umhverfisstofnun sem mun sjá um reksturinn. Environice annaðist verkefnisstjórn samkvæmt samningi við sambandið, sá um textagerð að miklu leyti, hannaði losunarreikni og réð verktaka til að sjá um vefhönnun og aðra tæknivinnu.
Tilgangur verkfærakistunnar er að styðja sveitarfélög við gerð og innleiðingu loftslagsstefnu. Í kistunni má finna ýmis tól og fróðleik sem ætlað er að auðvelda sveitarfélögum að reikna út losun gróðurhúsalofttegunda í rekstri sínum, setja sér viðeigandi markmið og skilgreina aðgerðir í loftslagsmálum út frá því. Í kistunni er einnig hugmyndabanki með aðgerðum til að minnka losun frá rekstri. Efni síðunnar var unnið af Environice sem fyrr segir, Snorri Eldjárn Snorrason og Úlfur A. Einarsson sáu um hönnun og forritun ytri vefsins, en Aranya annaðist hönnun innri vefs með aðgangsstýrðri gagnagátt fyrir skráningu upplýsinga frá sveitarfélögunum.
Verkfærakistan er sem fyrr segir vistuð hjá Umhverfisstofnun, samhliða sambærilegri verkfærakistu fyrir opinberar stofnanir og ríkisfyrirtæki. Slóðin er: https://loftslagsstefna.is.