Þann 17. febrúar sl. náðist samkomulag milli Evrópuþingsins og Ráðherraráðsins um breytingar á rammatilskipun ESB um úrgang, sem m.a. fela í sér að tekin verður upp framlengd framleiðendaábyrgð á textíl. Reyndar er eftir að samþykkja þessar breytingar formlega til að þær taki gildi, en það ætti að vera nánast formsatriði fyrst búið er að ná samkomulagi um þær.

Þegar framlengd framleiðendaábyrgð á textíl hefur verið lögfest verða umræddar breytingar á úrgangstilskipuninni birtar í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins og taka svo gildi 20 dögum síðar. Eftir það hafa aðildarríki Evrópusambandsins – og væntanlega þá líka Ísland, Noregur og Liechtenstein – 20 mánuði til að fella ákvæði um framleiðendaábyrgðina inn í löggjöf hvers lands um sig. Íslensk stjórnvöld hafa að vissu marki sjálfdæmi um hvernig þessar breytingar verða innleiddar, en líklegt má telja að það verði gert með því að fella textíl undir lög um úrvinnslugjald.

Textílúrgangur hefur verið talsvert í umræðunni síðustu vikur og mánuði eftir að sorpsamlög og úrgangsverktakar tóku víða um land við því hlutverki Rauðakross Íslands að safna textílúrgangi til endurvinnslu. Þessi breyting er ekki endilega til komin vegna breyttrrar löggjafar um úrgangsmál, heldur er hún að öllum líkindum fyrst og fremst afleiðing þess að sífellt meira af ódýrum textílefnum flæðir inn á markaðinn á Vesturlöndum. Þetta mikla framboð á textíl, samfara minnkandi gæðum, hefur gert það að verkum að markaðsverð á textíl til endurvinnslu hefur lækkað. Fyrir nokkrum árum hafði Rauðikrossinn talsverðar tekjur af því að selja textíl úr landi til endurvinnslu, en nú stendur slíkur útflutningur ekki lengur undir sér. Því einskorðast fatasöfnun Rauðakrossins á Íslandi nú við heilan og hreinan textíl, skó og fylgihluti til endursölu í Rauðakrossbúðum og til neyðaraðstoðar. Ein afleiðing þessara breytinga er sú að textílúrgangur hefur safnast upp hjá sorpsamlögum og úrgangsverktökum, og væntanlega hafa sveitarfélögin í landinu tekið á sig verulegan kostnað við söfnun og flutninga þessa úrgangsflokks.

Framlengd framleiðendaábyrgð á textíl felur það í stuttu máli í sér að öllum þeim aðilum sem setja textílvörur á markað, erlendar netverslanir meðtaldar, verður skylt að standa undir kostnaði á öllum líftíma vörunnar, sem aftur skapar hvata til að framleiða vörur sem endast sem lengst, er sem auðveldast að gera við og henta sem best til endurvinnslu – og hafa þar með í för með sér sem minnstan kostnað á úrgangsstiginu. Á Íslandi má ætla að breytt löggjöf feli í sér að textílefni verði felld undir lög um úrvinnslugjald, sem þýðir þá væntanlega að Úrvinnslusjóður rukkar alla sem setja textílvörur á markað hérlendis um nógu hátt gjald til að standa undir söfnun og endurvinnslu þessa varnings þegar hann er orðinn að úrgangi. Þetta mun vissulega leiða til verðhækkunar á fatnaði, en um leið minnkar úrgangsvandinn og endurvinnsla sem nú er fjárhagslega óhagkvæm ætti að geta orðið að álitlegu viðskiptatækifæri með tilheyrandi nýsköpun og atvinnuuppbyggingu. Nú þegar eru ýmsar snjallar hugmyndir um endurvinnslu til skoðunar, bæði hérlendis og erlendis, og af grein sem birtist í febrúarhefti tímaritsins Cleaner Engineering and Technology má ráða að á því sviði liggi ekki síst tækifæri í ýmsum líffræðilegum aðferðum sem gefa möguleika á að framleiða ólíklegustu verðmæti úr textílúrgangi, þar með talin ný textílefni, áburð, lífeldsneyti, amínósýrur, sítrónusýru og efnavörur af ýmsu tagi. Tækifærin eru á hverju strái – og um leið og kostnaður við endurvinnsluna er felldur inn í verð á fatnaði, verður hagkvæmt að virkja þessi tækifæri.