Environice vinnur með Sorpsamlagi Rangárvallasýslu bs. að mati á umhverfisáhrifum brennsluofns fyrir dýraleifar á urðunarstað samlagsins á Strönd á Rangárvöllum. Drög að tillögu að matsáætlun liggja nú fyrir og gefst almenningi kostur á að koma á framfæri athugasemdum við þau fram til 21. febrúar 2020. Eftir þann tíma verður tillaga að matsáætlun send Skipulagsstofnun til afgreiðslu, sbr. 17. gr. rgl. nr. 60/2015 um mat á umhverfisáhrifum.
Ofninn sem um ræðir er ætlaður fyrir dýrahræ og aðrar dýraleifar í áhættuflokki 1 og 2 frá sveitarfélögum og einkaaðilum á Suðurlandi, með afkastagetu allt að 4.000 tonn á ári. Undanfarin ár hafa dýrahræ af svæðinu farið til brennslu í Kölku á Suðurnesjum eða til urðunar í öðrum landshlutum. Möguleikar Kölku á að taka við þessum úrgangi eru mjög takmarkaðir og urðun dýrahræja uppfyllir ekki þær kröfur sem gerðar eru í lögum og reglugerðum um förgun dýraleifa. Í reynd er um bráðan vanda að ræða sem ætlunin er að bregðast við með því að koma upp aðstöðu til brennslu á svæðinu. Eingöngu verður heimilt að brenna dýraleifum í ofninum og þá aðeins þeim leifum sem ekki geta nýst til vinnslu á kjötmjöli eða moltu.
Brennsluofninn er ætlaður fyrir allt Suðurland og er undirbúningur að uppsetningu hans unninn í nánu samstarfi við önnur sveitarfélög á starfssvæði Sorpstöðvar Suðurlands bs.
Í fyrirliggjandi drögum að tillögu að matsáætlun er fyrirhugaðri framkvæmd lýst og greint frá helstu áhrifaþáttum sem teknir verða fyrir í mati á umhverfisáhrifum ofnsins. Vonir standa til að drög að matsskýrslu liggi fyrir um mitt ár og mun almenningi einnig gefast kostur á að kynna sér þá skýrslu og gera athugasemdir við hana.
Allir geta kynnt sér tillögudrögin á vefsíðum Sorpstöðvar Rangárvallasýslu bs., Rangárþings ytra (www.ry.is) og hér á þessari síðu (sjá neðar). Skriflegar ábendingar og athugasemdir skulu berast í síðasta lagi 21. febrúar 2020 á netfangið stefan@environice.is eða í pósti á heimilisfangið:
Umhverfisráðgjöf Íslands ehf.
Bjarnarbraut 8
310 Borgarnes
(Eindagi athugasemda er 21. febrúar 2020)