Environice vinnur að því að aðstoða Hafrannsóknastofnun við innleiðingu grænna skrefa og mótun loftslagsstefnu fyrir skrifstofurekstur og skipaflota stofnunarinnar.
Áður en samstarfið við Environice hófst var Hafrannsóknastofnun komin vel á veg í umhverfisstarfinu og hafði m.a. sett saman öflugt umhverfisteymi sem sér um að koma aðgerðum í farveg á öllum tíu starfsstöðvum stofnunarinnar. Environice mun einkum aðstoða stofnunina við mótun loftslagsstefnu og tilheyrandi aðgerðaáætlunar, svo go við innleiðingu fimmta og síðasta græna skrefsins.
Græn skref er verkefni fyrir ríkisstofnanir sem vilja draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum af starfsemi sinni og efla umhverfisvitund starfsmanna. Stofnanir sem taka þátt í þessu verkefni þurfa að fylgja skýrum gátlistum sem skipt er upp í fimm græn skref. Hvert skref felur í sér 20-40 aðgerðir sem þarf að innleiða í rekstur stofnananna. Umhverfisstofnun veitir viðurkenningu fyrir hvert skref sem stofnanir ljúka við og er Hafrannsóknastofnun nú þegar komin með þrjú skref af fimm.
Samkvæmt lögum um loftslagsmál ber Stjórnarráði Íslands, ríkisstofnunum og fyrirtækjum í meirihlutaeigu ríkisins að setja sér loftslagsstefnu. Hún skal innihalda skilgreind markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda og kolefnisjöfnun starfseminnar ásamt aðgerðum svo að þeim markmiðum verði náð. Tilgangur hennar er að auðvelda ríkisaðilum að draga markvisst úr áhrifum vegna losunar gróðurhúsalofttegunda. Loftslagsstefnuna skal endurskoða ár hvert og endurnýja þriðja hvert ár. Umhverfisstofnun hefur yfirumsjón með þessu verkefni á landsvísu.
Viðskiptavinur: Hafrannsóknastofnun
Verklok: Verkið hófst í desember 2021
Tengd útgáfa: Loftslagsstefna hefur ekki verið birt opinberlega ennþá