Environice aðstoðaði sveitarfélög á Norðurlandi, allt frá Hrútafirði í vestri að Bakkafirði í austri, við gerð sameiginlegrar svæðisáætlunar um meðhöndlun úrgangs. Áætlunargerðin er lagaskylda skv. lögum um meðhöndlun úrgangs, nr. 55/2003. Sveitarstjórn, einni eða fleiri í sameiningu, ber skv. lögunum að semja og staðfesta svæðisáætlun em gildir fyrir viðkomandi svæði til tólf ára í senn og skal sú áætlun fylgja stefnu um meðhöndlun úrgangs og stefnu um úrgangsforvarnir.
Í svæðisáætlun eiga m.a. að koma fram upplýsingar um stöðu úrgangsmála á svæðinu, aðgerðir til að bæta endurnotkun, endurnýtingu og förgun og hvernig sveitarstjórn hyggst ná markmiðum stefnu um meðhöndlun úrgangs og stefnu um úrgangsforvarnir. Að lokinni auglýsingu og kynningu áætlunarinnar skal sveitarstjórn staðfesta áætlunina og skal hún vera aðgengileg almenningi.
Tillaga að svæðisáætluninni, ásamt umhverfismatsskýrslu í samræmi við III. kafla laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana, nr. 111/2012, lá fyrir í mars 2023. Þá tók við sex vikna kynningarferli þar sem almenningi gafst kostur á að kynna sér tillöguna og umhverfismatsskýrsluna og koma athugasemdum sínum á framfæri. Að kynningarferlinu loknu var gengið frá endanlegri áætlun og hún send til afgreiðslu hjá viðkomandi sveitarstjórnum. Sveitarstjórn Svalbarðsstrandarhrepps varð fyrst til að samþykkja áætlunina. Það var gert á fundi sveitarstjórnar 23. maí 2023. Síðasta samþykktin var gerð 4. október sama ár og þar með tók áætlunin gildi.
Environice vann áætlunina í nánu samstarfi við samtök sveitarfélaga á Norðurlandi (SSNV og SSNE).
Verkkaupi: Öll sveitarfélög á Norðurlandi
Verklok: Verkið hófst í janúar 2022 og lauk endanlega 4. október 2023.
Útgáfa: Svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs á Norðurlandi 2023-2036