Environice vann að gerð svæðisáætlunar um meðhöndlun úrgangs í Sveitarfélaginu Hornafirði í samræmi við samkomulag aðila þar um. Í ársbyrjun 2022 var tekin ákvörðun um að vinna sameiginlega svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs fyrir Sveitarfélagið Hornafjörð, Skaftárhrepp og Mýrdalshrepp og hófst sú vinna af fullum krafti síðari hluta vetrar. Engin svæðisáætlun hafði verið í gildi fyrir Sveitarfélagið Hornafjörð, en hin sveitarfélögin tvö áttu aðild að svæðisáætlun Sorpsamlagsins Hulu, sem gilti fyrir tímabilið 2008-2020. Fljótlega varð ljóst að ekki væri raunhæft að ljúka gerð áætlunarinnar fyrir sveitarstjórnarkosningar í maí 2022 og í samræmi við það var áframhaldandi vinnu við verkið frestað. Í ársbyrjun 2023 þótti síðan endanlega ljóst að áherslur nýrra sveitarstjórna væru svo ólíkar að ekki væri ráðlegt að vinna eina svæðisáætlun fyrir allt svæðið. Því var ákveðið að Sveitarfélagið Hornafjörður myndi vinna sína eigin svæðisáætlun. Eftir nokkrar tafir vegna mannabreytinga hófst verkið af fullum þunga í byrjun september 2024.
Svæðisáætlun er lagaskylda skv. lögum um meðhöndlun úrgangs, nr. 55/2003. Sveitarstjórn, einni eða fleiri í sameiningu, ber skv. lögunum að semja og staðfesta svæðisáætlun em gildir fyrir viðkomandi svæði til tólf ára í senn og skal sú áætlun fylgja stefnu um meðhöndlun úrgangs og stefnu um úrgangsforvarnir.
Í svæðisáætlun eiga m.a. að koma fram upplýsingar um stöðu úrgangsmála á svæðinu, aðgerðir til að bæta endurnotkun, endurnýtingu og förgun og hvernig sveitarstjórn hyggst ná markmiðum stefnu um meðhöndlun úrgangs og stefnu um úrgangsforvarnir. Þetta felur m.a. í sér skoðun á þörf fyrir innviði fyrir meðhöndlun úrgangs á svæðinu. Að lokinni auglýsingu og kynningu áætlunarinnar skulu hlutaðeigandi sveitarstjórnir staðfesta hana og skal hún vera aðgengileg almenningi.
Tillaga að svæðisáætlun, ásamt umhverfismatsskýrslu í samræmi við III. kafla laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana, nr. 111/2021, lá fyrir í febrúar 2025 og gafst almenningi þá sex vikna frestur til að kynna sér tillöguna og koma athugasemdum sínum á framfæri. Kynningartímanum lauk 28. mars 2025 og svæðisáætlunin var síðan samþykkt í Bæjarstjórn Hornafjarðar 10. apríl.
Verkkaupi: Sveitarfélagið Hornafjörður
Tímarammi: Verkið hófst í september 2024 og lauk með samþykkt Bæjarstjórnar Hornafjarðar 10. apríl 2025.
Útgáfa: Svæðisáætlun Hornafjörður Apríl 2025