Í ársbyrjun 2019 var Stefán Gíslason skipaður formaður svæðisráða sem höfðu það hlutverk að vinna að gerð strandsvæðisskipulags fyrir Austfirði og Vestfirði í samræmi við lög nr. 88/2018 um skipulag haf- og strandsvæða. Svæðisráð ber ábyrgð á gerð strandsvæðisskipulags og er skipað fulltrúum fjögurra ráðuneyta, þremur fulltrúum sveitarstjórna á viðkomandi svæði og fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga. Svæðisráðinu til ráðgjafar og samráðs er samráðshópur með fulltrúum ferðamálasamtaka, Samtaka atvinnulífsins, útivistarsamtaka og umhverfisverndarsamtaka. Skipulagsstofnun annast gerð strandsvæðisskipulags í umboði svæðisráða og er þeim til ráðgjafar.
Skipulag á haf- og strandsvæðum er nýtt viðfangsefni í skipulagsmálum á Íslandi. Skýr þörf er fyrir gerð skipulags á þessum svæðum þar sem fjölbreyttar athafnir og aukin eftirspurn eftir athafnasvæðum eru fyrir hendi, m.a. vegna fiskeldis, ferðaþjónustu og efnistöku. Með skipulagi á haf- og strandsvæðum verður mörkuð stefna um nýtingu og vernd auðlinda þessara svæða. Hér er fyrst og fremst átt við staðbundna nýtingu og vernd, en gildissvið laganna nær t.d. ekki til verndar og nýtingar fiskistofna.
Með tilkomu skipulags á strandsvæðum verður m.a. skýrt að leyfi fyrir framkvæmdum eða annarri starfsemi verða að samræmast gildandi strandsvæðisskipulagi, sem unnið hefur verið í samvinnu ríkis og sveitarfélaga á viðkomandi svæði.
Formannstíð Stefáns lauk í árslok 2021 í framhaldi af ríkisstjórnarskiptum og flutningi verkefna á milli ráðuneyta.
Viðskiptavinur: Umhverfis og Auðlindaráðuneytið – og Skipulagsstofnun
Áætlaður tímarammi: Sumar 2022
Tengd útgáfa: https://www.hafskipulag.is/