Þann 24. nóvember 2021 samdi samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið (SRN) við Environice um að vinna greiningu á gildandi áætlunum í málaflokkum ráðuneytisins með tilliti til þess hvernig þessar áætlanir geti sem best stuðlað að umhverfislegri sjálfbærni og minnkandi losun gróðurhúsalofttegunda. Í greiningunni skyldu:
- Dregnar saman áherslur og aðgerðir/verkefni íslenskra stjórnvalda, sem snúa að málaflokkum ráðuneytisins, í gildandi stefnum og áætlunum hjá ríkinu.
- Dregnar saman aðrar aðgerðir sem tengjast málaflokkum SRN m.t.t. skuldbindinga Íslands.
- Greindir styrkleikar og veikleikar (áskoranir) hvers málaflokks ráðuneytisins m.t.t. umhverfislegrar sjálfbærni.
- Á grundvelli ofangreinds verði settar fram tillögur að samræmdum áherslum og aðgerðum sem þykja til þess fallnar að taka á áskorunum sem greiningin leiðir í ljós og falla sérstaklega að málaflokkaáætlunum ráðuneytisins.
Verkefnið er innlegg í vinnu sem staðið hefur yfir í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu um nokkurt skeið og miðar að aukinni samhæfingu áætlana í málaflokkum ráðuneytisins. Ráðuneytið byggir starf sitt á fjórum fagáætlunum, sem eru:
- Stefnumótandi byggðaáætlun
- Samgönguáætlun
- Stefna í fjarskiptum
- Stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga
Þessar áætlanir vinna allar að sömu framtíðarsýn og meginmarkmiðum sem gilda fyrir alla málaflokka samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins.
Verkkaupi: Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið
Verklok: Verkefninu lauk með kynnningu lokaskýrslu 12. janúar 2022
Tengd útgáfa: Skýrslan hefur ekki verið birt opinberlega