NordBio er skammstöfun fyrir Nordic Bioeconomy, eða Norræna lífhagkerfið, en svo nefnist þriggja ára norræn samstarfsáætlun sem íslensk stjórnvöld höfðu forgöngu um að hrinda af stað árið 2014. Markmið Norræna lífhagkerfisins var að gera Norðurlöndin leiðandi í sjálfbærri framleiðslu og nýtingu lífauðlinda og styrkja norræna samvinnu á því sviði. Áhersla var lögð á að draga úr sóun og álagi á umhverfi og að efla nýsköpun, rannsóknarsamstarf, menntun, atvinnulíf og byggðaþróun, en með lífhagkerfi er í stuttu máli átt við þann hluta hagkerfisins sem byggir á endurnýjanlegum auðlindum til sjós og lands.

Þrjú íslensk ráðuneyti stóðu að NordBio áætluninni, þ.e. atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, umhverfis- og auðlindaráðuneytið og mennta- og menningarmálaráðuneytið. Samstarfið við hin Norðurlöndin fór síðan fram innan fimm norrænna ráðherranefnda. Ýmis verkefni voru unnin sem hluti af áætluninni og voru flest þeirra í umsjón íslenskra stofnana, en unnin í nánu samstarfi við sambærilegar stofnanir á Norðurlöndunum. Sjaldan ef nokkurn tímann hefur verkefni á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar krafist samvinnu svo margra ólíkra samstarfssviða.

Environice aðstoðaði íslensk stjórnvöld við nokkra þætti innan NordBio-áætlunarinnar. Í fyrsta lagi aðstoðaði Environice við undirbúning og stjórnun lokaráðstefnu áætlunarinnar sem haldin var í Hörpu í byrjun október 2016 undir yfirskriftinni Minding the Future. Stefán Gíslason var m.a. annar tveggja ráðstefnustjóra, en hinn var Þóra Arnórsdóttir, ritstjóri Kastljóss. Í öðru lagi ritstýrðu Stefán og Hrafnhildur Bragadóttir lokaskýrslu áætlunarinnar og bjuggu hana til prentunar. Og í þriðja lagi unnu Hrafnhildur og Stefán að gerð og útgáfu bæklings á íslensku þar sem leitast er við að færa umræðuna um lífhagkerfi nær hinum venjulega borgara. Þar er m.a. að finna útskýringar á því hvaða þýðingu lífhagkerfið hefur fyrir hinn venjulega Íslending og fyrir Íslendinga sem þjóð. Bæklingurinn leit dagsins ljós á ráðstefnu um lífhagkerfið („Úrgangur í dag – auðlind á morgun“) sem haldin var í Reykjavík 24. maí 2017.

Viðskiptavinur: Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið

Tímarammi: 2016-2017

Tengd útgáfa:
Lokaskýrsla Norrænu lífhagkerfisáætlunarinnar
Bæklingur