Í lok mars 2020 samdi Environice við Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi (SSV) um útreikning á kolefnisspori landshlutans í heild, en verkefnið er liður í að ná því markmiði Sóknaráætlunar Vesturlands að draga úr losun kolefnis um 10% fram til ársins 2025. Hlutverk Environice samkvæmt samningnum var m.a. að ráðleggja um aðferðafræði við útreikning á kolefnissporinu, afla tölulegra upplýsinga og leggja fyrstu drög að aðgerðaáætlun sem miðar að því að minnka kolefnissporið, auk aðstoðar við framsetningu og túlkun niðurstaðna.
Verkefnið var í aðalatriðum sambærilegt fyrri verkefnum Environice á þessu sviði sem unnin voru annars vegar fyrir Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra og hins vegar fyrir Samtök sunnlenskra sveitarfélaga. Afrakstur verkefnisins var skýrsla sem kynnt var fyrir stjórn SSV um mánaðarmótin apríl/maí 2021. Meginniðurstaða skýrslunnar var að samanlagt kolefnisspor svæðisins árið 2019 hafi numið 2.742.135 tonnum koldíoxíðígilda (CO2íg) og að þar af hafi 1.613.364 tonn (um 59%) verið losun frá landnotkun, 845.155 tonn (um 31%) losun frá stóriðju og 283.616 tonn (um 10%) verið samfélagslosun. Losun gróðurhúsalofttegunda frá hverjum íbúa á Vesturlandi er samkvæmt þessu talsvert frábrugðin losun í flestum öðrum landshlutum. Annars vegar er losun vegna landnotkunar hlutfallslega mjög mikil, enda er slík losun eðli málsins samkvæmt mest í landmiklum héruðum þar sem mikið er af framræstu votlendi. Hins vegar er losun frá stóriðju á Vesturlandi mun meiri en að meðaltali í öðrum landshlutum, enda eru tvö af fimm stóriðjufyrirtækjum landsins staðsett á svæðinu.
Viðskiptavinur: Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi vestra (SSV)
Tímarammi: Samningur undirritaður 30. mars 2020. Verklok vorið 2021.
Tengd útgáfa: Kolefnisspor Vesturlands