Environice er fulltrúi Íslands í verkefni á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar undir yfirskriftinni „Nordic Circular Economy Potential“. Ráðgjafarstofan GAIA í Finnlandi stýrir verkefninu, með samstarfsaðila í hinum Norðurlöndunum, þ.e.a.s. Environice á Íslandi, PlanMiljø í Danmörku, NORSUS í Noregi og RISE í Svíþjóð. Verkefnið er unnið fyrir vinnuhóp Norrænu ráðherranefndar um hringrásarhagkerfi, svonefndan NCE-hóp, sem í sitja 1-2 fulltrúar stjórnvalda í hverju landi.
Tilgangur verkefnisins er að greina og leggja mat á tækifæri mismunandi atvinnugreina til nýsköpunar í anda hringrásarhagkerfisins og gera í framhaldi af því tillögur til stjórnvalda á Norðurlöndunum um aðgerðir til að stuðla að nýtingu þessara tækifæra. Vinna við verkefnið hófst í vetrarbyrjun 2020 og stendur í tvö ár. Verkefnið skiptist í þrjá verkþætti. Sá fyrsti snerist um að greina tækifærin í hverju landi um sig og á hvaða sviðum væri líklegt að samstarf landanna fimm myndi skila árangri. Í verkþætti nr. 2 var unnin sameiginleg greining fyrir allt svæðið á líklegum árangri sameiginlegra verkefna í anda hringrásarhagkerfisins og helstu hindrunum sem ryðja þarf úr vegi til að hámarka árangurinn. Á árinu 2022 verður svo lokið við þriðja verkhlutann sem snýst um taka saman tillögur til stjórnvalda á Norðurlöndunum um næstu skref.
Verkkaupi: GAIA, Finnlandi
Verklok: Árslok 2022
Tengd útgáfa: Vinnuskjal með niðurstöðum 1. verkhluta. Skýrsla um verkhluta nr. 2 kemur út vorið 2022.