Á síðustu árum hefur starfsfólk Environice haldið fjöldann allan af fyrirlestrum við ólíklegustu tækifæri um hvaðeina sem tengist umhverfismálum og sjálfbærri þróun. Þessir fyrirlestrar hafa verið haldnir fyrir starfsfólk fyrirtækja, sveitarfélög, Rotaryklúbba, opinberar stofnanir, hagsmunasamtök og kvennaklúbba, svo eitthvað sé nefnt.
Í öllu þessu fyrirlestrahaldi hefur smám saman orðið til mikið safn af aðgengilegu efni, sem er í senn fræðandi og dálítið skemmtilegt. Þetta efni er í stöðugri þróun, og svo er líka alltaf hægt að raða því saman upp á nýtt til að koma til móts við nýja markhópa. Og tímalengdin getur verið allt frá 5 mínútum upp í 5 sólarhringa. (Reyndar hefur enginn pantað svo langan fyrirlestur enn sem komið er).
Starfsfólk Environice á það sameiginlegt að finnast gaman að halda fyrirlestra um sérsvið sín og hugðarefni. Þess vegna er starfsfólkið til í að koma nánast hvert sem er, hvenær sem er í þessum erindagjörðum.
Síðustu þrjú ár hefur Stefán Gíslason skrifað pistla fyrir þættina Sjónmál og Samfélagið á Rás 1. Fjöldi pistla og viðtala á þeim vettvangi er kominn á þriðja hundraðið. Stóran hluta þessa efnis má nálgast á vef Ríkisútvarpsins, sjá tengla á síðunni 2020.is. Auk þess hefur Stefán og aðrir starfsmenn Environice sinnt greinaskrifum fyrir ýmsa miðla, ýmist að eigin frumkvæði eða samkvæmt beiðni.
Dæmi um umfjöllunarefni fyrirlestra:
- Flokkun úrgangs
- Grænt hagkerfi
- Jarðgerð
- Lífræn framleiðsla
- Loftslagsmál
- Losunarheimildir
- Maður og náttúra
- Mannlegi þátturinn
- Mat náttúruverðmæta
- Matur og umhverfi
- Mikilvægi fyrirmyndanna
- Náttúruvernd
- Opinber innkaup
- Orkusparnaður
- Plast
- Siðræn viðskipti
- Sjálfbær neysla
- Sjálfbær þróun
- Sjálfbærnivísar
- Staðardagskrá 21
- Umhverfismerkingar
- Umhverfisstarf í fyrirtækjum
- Umhverfisvottanir í ferðaþjónustu
- Upprunaábyrgðir
- Úrgangsmál