Stefán er stofnandi og eigandi UMÍS ehf. Environice. Hann fæddist og ólst upp norður á Ströndum, fyrst sem smali í Bitrufirði í 25 ár, síðan sem skólastjóri í Kollafirði í 3 ár og loks sem sveitarstjóri á Hólmavík í 12 ár. Að þessum uppvexti loknum fór hann í framhaldsnám til Svíþjóðar og kom þaðan rúmu ári síðar með meistaragráðu í stefnumótun og stjórnun umhverfismála í farteskinu. Gerðist þá verkefnisstjóri Staðardagskrár 21 á Íslandi og stofnaði skömmu síðar (á hlaupársdag árið 2000) fyrirtækið UMÍS ehf. Environice. Velferð komandi kynslóða er helsta áhugamál Stefáns, en skemmtilegast finnst honum þó að stunda fjallvegahlaup (og önnur hlaup sem honum finnast nógu löng, þ.m.t. maraþonhlaup (besti árangur 3:08:19 klst. 2013)). Hann gaf út bókina Fjallvegahlaup á sextugsafmælinu sínu 2017 og skrifar líka annað slagið pistla fyrir vefsíðuna hlaup.is. Það sem hann gerir í vinnunni er hins vegar tíundað annars staðar á þessari heimasíðu Environice. Stefán er kvæntur og á þrjú börn á fertugsaldri og eitt barnabarn.

Starfsferilsskrá

Menntun:
1969  Barnapróf frá Farskóla Fells- og Óspakseyrarskólahverfis
1973  Landspróf frá Reykjaskóla
1976  Stúdentspróf frá MH
1980  BS-próf í líffræði frá HÍ (Lokaritgerð um erfðir sauðalita)
1982  BS120 í líffræði frá HÍ (Lokaritgerð um BLUP við kynbótaspá í sauðfjárrækt)
1982  Próf í uppeldis- og kennslufræði til kennsluréttinda frá HÍ
1998  MSc-próf í umhverfisstjórnun frá Háskólanum í Lundi í Svíþjóð,
(nánar tiltekið frá Alþjóðastofnuninni um umhverfishagfræði iðnaðarins, (International Institute for Industrial Environmental Economics (IIIEE))) (Lokaritgerð um innkaup á lífrænum matvælum fyrir sænsku veitingahúsakeðjuna Meaning Green)

Starfsferill:
1957(?)-1985  Sveitastörf annað slagið
1969-1980  Slátursvinna og girðingarvinna einstaka sinnum
1977-1981  Stundakennsla við MH
1978-1985  Framkvæmdastjóri HSS af og til
1980-1981  Stundakennsla við HÍ
1980-1982  Störf við verkefni á RALA (Rannsóknarstofnun landbúnaðarins)
1982-1985  Skólastjóri Broddanesskóla
1985-1997  Sveitarstjóri Hólmavíkurhrepps
1988-1997  Framkvæmdastjóri Héraðsnefndar Strandasýslu
1998-2009  Verkefnisstjóri Staðardagskrár 21 á Íslandi
2000-          Eigandi og framkvæmdastjóri UMÍS ehf. Environice