Lífhagkerfið er útskýrt á aðgengilegan hátt í bæklingi sem kom út í vikunni og var lagður fram á ráðstefnunni „Úrgangur í dag – auðlind á morgun“ sem haldin var í Reykjavík á miðvikudag. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið og atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið gefa bæklinginn út, en Hrafnhildur Bragadóttir og Stefán Gíslason hjá Environice tóku saman efnið í bæklinginn og skrifuðu textann. Tilgangurinn með útgáfu bæklingsins er öðru fremur að færa umræðuna um lífhagkerfi nær hinum venjulega borgara. Þar er m.a. að finna útskýringar á því hvaða þýðingu lífhagkerfið hefur fyrir hinn venjulega Íslending og fyrir Íslendinga sem þjóð, auk þess sem nefnd eru nokkur áþreifanleg dæmi um nýsköpun sem byggir á lifandi auðlindum.
Ráðstefnan á miðvikudag var í raun endapunktur áætlunarinnar um Norræna lífhagkerfið (NordBio) sem hófst á formennskuári Íslands í Norrænu ráðherranefndinni 2014.
Bæklingurinn verður aðgengilegur á netinu á næstu dögum.
(Uppfært 26. maí kl. 09:40: Hægt er að nálgast bæklinginn á síðunni auðlindatorg.is).