Á dögunum kom út ný norræn skýrsla um vottun fyrir söfnun á notuðum textílvörum, en Environice hefur unnið að því síðustu mánuði ásamt þremur öðrum norrænum ráðgjafarstofum að þróa nýtt vottunarkerfi fyrir söfnun slíks varnings til endurvinnslu og annarrar endurnýtingar. Þörfin fyrir vottun af þessu tagi stafar m.a. af því að víða erlendis safna einkaaðilar notuðum fötum undir því yfirskini að ágóðinn renni til líknarmála – og selja svo skástu fötin sjálfir og henda því sem af gengur. Vottuninni er því ætlað að tryggja rétta meðhöndlun þeirrar textílvöru sem skilað er í söfnunargáma. Vottunarkerfið verður opið öllum þeim aðilum á Norðurlöndunum sem fást við söfnun og flokkun á notuðum textílvörum, en til þess að fá vottun þurfa þeir að uppfylla strangar kröfur um gagnsæi, endurvinnsluhlutfall o.fl.
IVL Svenska Miljöinstitutet leiddi verkefnið sem hér um ræðir en það var unnið fyrir vinnuhóp Norrænu ráðherranefndarinnar um úrgangsmál (Nordiska avfallsgruppen (NAG)). Auk IVL og Environice tóku ráðgjafarstofurnar Copenhagen Resource Institute (CRI) í Danmörku og Østfoldforskning í Noregi þátt í verkefninu. Kerfið er hluti af verkefninu „Nordic textile reuse and recycling commitment“ sem aftur er hluti af verkefni Norrænu ráðherranefndarinnar um grænan hagvöxt. Hægt er fylgjast með innleiðingu vottunarkerfisins á sérstakri heimasíðu verkefnisins,http://www.textilecommitment.org og skýrsluna má finna á vefsvæði Norrænu ráðherranefndarinnar, (sjá tengil hér að neðan):