Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi (SSV) hafa gefið út Menningarstefnu Vesturlands, sem unnin var á vordögum 2016. Birgitta Stefánsdóttir og Stefán Gíslason hjá Environice aðstoðuðu við gerð stefnunnar, en hlutverk þeirra fólst einkum í undirbúningi íbúafunda, fundarstjórn og úrvinnslu í samstarfi við sérstakan ráðgjafarhóp sem SSV skipaði til verksins.
Menningarstefnu Vesturlands er ætlað að mynda grunn fyrir ákvarðanatöku SSV í menningarmálum, þ.m.t. við úthlutun verkefnastyrkja og stofn- og rekstrarstyrkja úr Uppbyggingarsjóði Vesturlands. Einnig er stefnunni ætlað að styðja við menningarstefnu sveitarfélaga í landshlutanum. Menningarstefnan byggir á fimm þáttum sem aðilar voru sammála um að skiptu mestu máli í menningarmálum. Framsetningin er skýr og einföld og skýrslan er orðfá og auðveld í eftirfylgni.
Við undirbúning og framkvæmd íbúafundanna var beitt svipaðri aðferðafræði og Environice hefur áður beitt í sambærilegum stefnumótunarverkefnum. Sama má segja um endanlegt form afurðarinnar.
Menningarstefnan er aðgengileg á vef SSV.