Environice hefur lokið við mat á umhverfisáhrifum efnistöku við Affall í landi Vorsabæjar í Rangárþingi eystra, en vinna við matið hefur staðið yfir síðusta eitt og hálft ár. Áætluð efnistaka um 630.000 rúmmetrar og er framkvæmdin matsskyld samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 með vísan í tölulið 2.01 og 13.01 í 1. viðauka laganna.
Tilgangur framkvæmdarinnar er að mæta efnisþörf fyrir framleiðslu á steypu og öðru unnu efni á svæðum í nánd við efnistökuna.
Framkvæmdin mun hafa óveruleg áhrif á alla 7 umhverfisþættina sem metnir voru. Niðurstaða matsins er að heildaráhrif framkvæmdarinnar verði óveruleg. Í því felst að áhrif framkvæmdarinnar eru minniháttar, með tilliti til umfangs svæðisins og viðkvæmni þess fyrir breytingum, ásamt þeim litla fjölda fólks sem verður fyrir áhrifum. Áhrifin eru staðbundin, að hluta til tímabundin á rekstrartíma en að hluta til varanleg, eins og áhrifin á jarðmyndanir. Framkvæmdin samræmist ákvæðum laga og reglugerða, sem og almennri stefnumörkun stjórnvalda.
Salome Hallfreðsdóttir hafði yfirumsjón með matsvinnunni f.h. Environice og annaðist gerð umhverfismatsskýrslunnar, en verkið var unnið fyrir Hólaskarð ehf. Hægt er að nálgast matsskýrsluna, álit Skipulagsstofnunnar og önnur gögn um matið á heimasíðu Skipulagsstofnunnar.