Dagana 27.-28. september nk. verður norræn málstofa um eldra fólk og loftslagsmál haldin í Reykjavík. Málstofan er annar verkhluti af þremur í verkefninu Äldre folk och klimat – Nytta för båda två, sem Environice stýrir skv. samningi við umhverfis- orku og loftslagsráðuneytið í samvinnu við félags- og vinnumarkaðsráðuneytið. Verkefnið er hluti af formennskuáætlun Íslands fyrir Norrænu ráðherranefndina og gengur út á að efla samstarf milli hópa eldra fólks á Norðurlöndunum á sviði loftslagsmála.
 
Á dagskrá málstofunnar eru stutt erindi um starfsemi hópa eldri borgara frá Norðurlöndunum sem einbeita sér öðru fremur að loftslagsmálum. Einnig verða þarna pallborðsumræður og hópavinna, þar sem m.a. er ætlunin að ganga frá tillögum til stjórnvalda á Norðurlöndunum um það hvernig þau geti best stutt við starf aldraðra á þessu sviði og þar með nýtt þá miklu þekkingu og reynslu sem þessi hópur býr yfir. Málstofunni lýkur síðan með rútuferð um Reykjanesskagann, þar sem norrænum gestum gefst kostur á að skoða eitt virkasta eldfjallasvæði landsins.
 
Málstofan er öllum opin, en nauðsynlegt er að skrá sig til þátttöku. Skráning fer fram undir þessum tengli. Þar er fólk m.a. beðið að tilgreina hvort það hyggist mæta á staðinn (Nauthóll) eða fylgjast með í streymi.