Í gær kynnti matvælaráðherra Aðgerðaáætlun um eflingu lífrænnar framleiðslu, sem byggð er á tillögum Environice frá því í ársbyrjun 2023. Áætlunin er sú fyrsta á vegum stjórnvalda og var unnin í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Eitt af áhersluverkefnunum sem þar eru tilgreind er einmitt mótun áætlunar til eflingar lífrænnar framleiðslu.

Í aðgerðaáætluninni er sett fram það meginmarkmið að 10% af landbúnaðarlandi á Íslandi verði komið með lífræna vottun árið 2040. Aðgerðunum, sem eiga að stuðla að því að þetta markmið náist, er skipt í fimm eftirtalda málaflokka, sem hver um sig snýr að tilteknum hluta virðiskeðju lífrænna matvæla eða að tilteknum innviðum sem þurfa að vera til staðar til að keðjan í heild verði sem sterkust.

  • Aðlögunar- og rekstrarstyrkir
  • Aðföng
  • Rannsóknir, ráðgjöf, nýsköpun og vöruþróun
  • Markaðsstarf, kynning og fræðsla
  • Eftirfylgni, endurskoðun og samræming stefnumótunar

Aðgerðaáætlunin er sem fyrr segir byggð á tillögum Environice. Á grunni þeirra kynnti þáverandi matvælaráðherra drög að áætlun í nóvember 2023, sem síðan voru sett í samráðsgátt. Nú hefur verið unnið úr ábendingum og gengið frá lokaútgáfu áætlunarinnar. Það er Environice mikið gleðiefni að hafa fengið að taka þátt í að móta þessar tillögur og sjá þær síðan formgerast í lokaútgáfunni.

Samkvæmt frétt á heimasíðu matvælaráðuneytisins er gert ráð fyrir að rúmlega 60 milljónum króna verði varið til að ýta aðgerðaáætluninni úr vör.