Environice hefur aðstoðað embætti Lögreglustjórans á Vesturlandi við umbætur í umhverfisstarfi embættisins. Embættið vill vera í fararbroddi í umhverfismálum og hefur sett saman öflugt umhverfisteymi starfsfólks á öllum sex starfsstöðvum embættisins.
Innleiðing grænna skrefa og mótun loftslagsstefnu hafa verið meginstefin í samstarfi Environice og Lögreglunnar. Græn skref er verkefni fyrir ríkisstofnanir sem vilja draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum af starfsemi sinni og efla umhverfisvitund starfsmanna. Stofnanir sem taka þátt í þessu verkefni þurfa að fylgja gátlistum sem skipt er upp í fimm græn skref, sem hvert um sig felur í sér 20-40 aðgerðir sem þarf að innleiða í rekstri stofnananna. Umhverfisstofnun veitir síðan viðurkenningu fyrir hvert skref sem lokið er við.
Samkvæmt lögum um loftslagsmál ber Stjórnarráði Íslands, ríkisstofnunum og fyrirtækjum í meirihlutaeigu ríkisins að setja sér loftslagsstefnu. Hún skal innihalda skilgreind markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda og kolefnisjöfnun starfseminnar ásamt aðgerðum svo að þeim markmiðum verði náð. Loftslagsstefnuna skal endurskoða ár hvert og endurnýja þriðja hvert ár. Umhverfisstofnun hefur yfirumsjón með þessu verkefni á landsvísu.
Umhverfisstarf Lögreglunnar á Vesturlandi hefur skilað einkar skjótum og góðum árangri. Vorið 2023 fékk embættið afhenta fyrstu sérútbúnu, fjórhjóladrifnu lögreglubifreiðina í Evrópu og í árslok 2023 verður búið að skipta öllum bílaflota embættisins út fyrir rafbíla, að frátöldum þremur bílum sem nýttir eru í sérstök verkefni. Losun gróðurhúsalofttegunda vegna starfsemi embættisins verður allt að því 50% minni á árinu 2023 en hún var 2020 – og gert er ráð fyrir að á árinu 2024 verði búið að ná um 75% samdrætti. Fá eða engin dæmi munu vera um slíkt í umhverfisstarfi ríkisstofnana á Íslandi, enda er embætti Lögreglustjórans á Vesturlandi um það bil búið að ná þeim markmiðum í loftslagsmálum sem upphaflega voru sett fyrir árið 2030.
Föstudaginn 8. desember 2023 afhenti Ester Alda Hrafnhildar Bragadóttir embætti Lögreglustjórans á Vesturlandi sérstaka viðurkenningu Umhverfisstofnunar í tilefni af því að embættið hafði þá lokið við öll fimm grænu skrefin!
Á ársfundi Orkustofnunar sem haldinn var í Hofi á Akureyri 26. september 2024 fékk Lögreglan á Vesturlandi „Silfurdekkið“ sem viðurkenningu fyrir árangur í orkuskiptum bílaflota embættisins. „Silfurdekkið“ er veitt fyrir 60% hreinorku, en embættið er nú að aka um 80% á hreinorku og því stutt í „Gulldekkið“ sem veitt er fyrir 90% árangur.
Viðskiptavinur: Lögreglustjórinn á Vesturlandi
Tímarammi: Verkið hófst í desember 2021 og stendur til ársloka 2030
Útgefið efni:
Loftslagsstefna Lögreglunnar á Vesturlandi
Umfjöllun Skessuhorns 13. desember 2023
Frétt um afhendingu „Silfurdekksins“
(Guðrún Jónsdóttir, blaðamaður Skessuhorns, tók myndina hér að neðan 8. des. 2023 þegar embætti Lögreglustjórans á Vesturlandi fékk afhenta viðurkenningu Umhverfisstofnunar fyrir grænu skrefin fimm. Frá vinstri: Hilmar Þór Hilmarsson, Ester Alda Hrafnhildar Bragadóttir, Stefán Gíslason, Ásmundur Kr. Ásmundsson, Gunnar Jónsson, Jón Arnar Sigurþórsson og Hafþór Ingi Þorgrímsson).