Environice annaðist stjórn verkefnis sem gengur út á að útbúa verkfærakistu fyrir sveitarfélög sem vinna að stefnumótun í loftslagsmálum, sem hýst verður á vefsíðunni loftslagsstefna.is. Ingunn Gunnarsdóttir og síðar Salome Hallfreðsdóttur báru hitann og þungann af þessu verkefni af hálfu Environice.
Verkfærakistan skiptist annars vegar í opinn ytri vef sem m.a. mun innihalda almennar upplýsingar um loftslagsstefnur sveitarfélaga, skyldur sveitarfélaga skv. lögum um loftslagsmál, hugmyndir að aðgerðum sem sveitarfélög geta ráðist í til að minnka losun frá rekstri (hugmyndabanka), hlekki á loftslagsstefnur sveitarfélaga, fræðslu- og kynningarefni, nýtt fræðsluefni sem verður útbúið fyrir þetta verkefni, hlekki á viðeigandi fræðsluefni á öðrum vefsíðum – og hins vegar í innri vef sem verður einungis aðgengilegur starfsmönnum sveitarfélaga og hefur að geyma skilgreindar afurðir verkefnisins, m.a. losunarreikni sniðinn að fjölbreyttum rekstri sveitarfélaga, sniðmát að loftslagsstefnu og aðgerðaáætlun fyrir sveitarfélög, svo og aðgerðabanka. Umhverfisstofnun mun hýsa vefinn og fara með umsjón hans að verkefni loknu, í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga sem heldur utan um gerð verkfærakistunnar.
Undirbúningur að gerð verkfærakistunnar hófst í september 2020, en samningur milli Sambands íslenskra sveitarfélaga og Environice um verkefnisstjórnina var undirritaður í byrjun desember. Samkvæmt samningnum annaðist Environice daglega umsjón og reglulegt samráð við skilgreinda aðila að verkefninu, þ.e. verkkaupa, Umhverfisstofnun, stýrihóp verkefnisins, samstarfsvettvang
sveitarfélaganna um loftslagsmál og heimsmarkmið, vinnuhóp samstarfsvettvangsins og Landvernd. Auk þess sá Environice um val, ráðningu og samskipti við vefhönnuði, sem útbjuggu ytri og innri vef verkefnisins í nánu samráði við Environice og Umhverfisstofnun. Samið var við Snorra Eldjárn og Úlf Alexander Einarsson um gerð ytri vefjarins og við Aranja ehf. um gerð innri vefjarins.
Auk þess sem hér hefur verið nefnt útbjó Birna S. Hallsdóttir hjá Environice losunarreikni fyrir losun gróðurhúsalofttegunda í rekstri sveitarfélaga, en losunarreiknirinn verður aðgengilegur sem hluti af verkfærakistunni.
Þætti Environice í gerð verkfærakistunnar lauk í júní 2021. Samband íslenskra sveitarfélaga og Umhverfisstofnun munu síðan sjá um prófun verkfæranna í samvinnu við tiltekin sveitarfélög og vefhönnuði. Í framhaldi af því verður verkfærakistan formlega opnuð.
Viðskiptavinur: Samband íslenskra sveitarfélaga
Verklok: Júní 2021
Tengd útgáfa: