Stefán Gíslason, framkvæmdastjóri Environice, tók þátt í pallborðsumræðum á málþingi Fróðskaparseturs Færeyja (Háskóla Færeyja) sem haldið var í Þórshöfn 24. maí sl. Pallborðið hafði yfirskriftina „CERTIFICATION AND PROTECTION OF NATURE“ og var stýrt af Óluvu Zachariasen, sjónvarpskonu hjá Kringvarpi Færeyja. Í umræðunum gerði Stefán grein fyrir vinnu Environice við þróun sjálfbærnivottunar fyrir áfangastaði ferðamanna, svo og reynslu Íslendinga af vottun einstakra áfangastaða og einstakra ferðaþjónustufyrirtækja. Þátttakendur í málstofunni, auk Stefáns, voru María Gunnleivssdóttir Hansen frá Umhvørfisstofu Færeyja og Kelly S. Bricker varaformaður GSTC (Global Sustainable Tourism Council).
Nánari upplýsingar um málþingið má finna á heimasíðu þess, en þingið var hluti af verkefninu Green Growth Dialogue. Á heimasíðu Kringvarps Færeyja er einnig að finna umfjöllun og viðtöl vegna málþingsins, þ.á.m. viðtal við Stefán Gíslason. Málþingið var haldið í Sjóvinnuhúsinu á Vestari bryggju í Þórshöfn, en meðfylgjandi mynd er tekin þaðan af hlaðinu.