Norræna ráðherranefndin gaf á dögunum út lokaskýrslu Norræna lífhagkerfisverkefnisins (NordBio) sem hrint var af stokkunum á formennskuári Íslands í Norrænu ráðherranefndinni 2014. Hrafnhildur Bragadóttir og Stefán Gíslason hjá Environice ritstýrðu skýrslunni og bjuggu hana til prentunar, en Environice aðstoðaði einnig við undirbúning og stjórnun lokaráðstefnu NordBio-verkefnisins sem haldin var í Hörpu í byrjun október 2016.
Áætlunin um Norræna lífhagkerfið stóð yfir í þrjú ár, 2014-2016, og fól í sér náið þverfaglegt samstarf milli íslenskra og norænna stofnana á fjölmörgum málefnasviðum. Ráðuneytin sem stóðu að áætluninni hér á landi voru atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, umhverfis- og auðlindaráðuneytið og mennta- og menningarmálaráðuneytið. Fimm ráðherranefndir tóku þátt í verkefninu á norrænum vettvangi, auk þess sem ýmsar norrænar stofnanir lögðu sitt af mörkum. Flest verkefnin innan áætlunarinnar voru unnin undir forystu íslenskra stofnana í nánu samstarfi við sambærilegar stofnanir á Norðurlöndunum.
Sem fyrr segir fólst hlutverk Environice í vinnunni við Norræna lífhagkerfið annars vegar í aðstoð við ráðstefnuhaldið síðastliðið haust og hins vegar í ritstýringu lokaskýrslunnar. Þessa dagana vinnur Environice að gerð og útgáfu bæklings á íslensku þar sem leitast er við að færa umræðuna um lífhagkerfi nær hinum venjulega borgara. Þar verður m.a. að finna útskýringar á því hvaða þýðingu lífhagkerfið hefur fyrir hinn venjulega Íslending og fyrir Íslendinga sem þjóð, en með lífhagkerfi er í stuttu máli átt við þann hluta hagkerfisins sem byggir á endurnýjanlegum auðlindum til sjós og lands. Efling lífhagkerfisins miðar að því að hámarka virði auðlindanna án þess að ganga á þær og því er hugmyndafræðin öll náskyld hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar.
Hægt er að nálgast lokaskýrslu Norræna lífhagkerfisverkefnisins á heimasíðu Norrænu ráðherranefndarinnar. Rafræn útgáfa skýrslunnar er ókeypis en á síðunni er einnig hægt að panta prentuð eintök gegn vægu gjaldi. Skýrslan er skrifuð á ensku með sænskri samantekt.