Environice hefur um allnokkurt skeið unnið að greiningu á stöðu úrgangsmála á Suðurlandi og gerð tillagna um fyrirkomulag málaflokksins í landshlutanum á næstu árum. Verkið felur m.a. í sér öflun upplýsinga um núverandi stöðu mála og kortlagningu á uppruna og afdrifum úrgangs, svo og greiningu á mismunandi úrvinnsluleiðum fyrir einstaka úrgangsflokka.
Fyrsti áfangi verksins var unninn samkvæmt samningi Environice við Sorpstöð Suðurlands bs., dags. 26. september 2016. Áfangaskýrslu með yfirliti yfir stöðu mála var skilað í mars 2017. Fyrsta áfanga lauk síðan með útgáfu lokaskýrslu haustið 2017. Meginniðurstaða lokaskýrslunnar fólst í sameiginlegum tillögum Environice og stjórnar Sorpstöðvar Suðurlands sem samþykktar voru á aðalfundi sorpstöðvarinnar 20. október 2017.
Annar áfangi verksins hófst að loknum aðalfundi 2017 í samræmi við nýjan samning um verkið, dags. 14. nóvember. Þessi áfangi fólst í frekari útfærslu á samþykktum aðalfundarins og í að hrinda þessum samþykktum í framkvæmd, auk ráðgjafar við aðildarsveitarfélög sorpstöðvarinnar hvað varðar þátt hvers þeirra um sig í eftirfylgninni.
Í ársbyrjun 2019 hætti SORPA bs. að taka við úrgangi frá Suðurlandi til urðunar. Síðan þá hefur hlutverk Environice í samstarfinu við Sorpstöð Suðurlands öðru fremur snúist um aðstoð við að finna leiðir til að farga þeim úrgangi sem ekki tekst að koma í aðra vinnslu, þ.m.t. að leita að nýjum urðunarstað á Suðurlandi. Einnig hefur verið unnið að þróun annarra valkosta, svo sem úrvinnslu á lífrænum úrgangi og dýrahræjum.
Starfssvæði Sorpstöðvar Suðurlands bs. nær frá Hellisheiði í vestri að Markarfljóti í austri.
Viðskiptavinur: Sorpstöð Suðurlands bs.
Áætlaður tímarammi: 2016-2020
Tengd útgáfa:
- Staða úrgangsmála á Suðurlandi 2016 (Áfangaskýrsla, mars 2017)
- Valkostir í söfnun og meðhöndlun úrgangs frá sveitarfélögum á Suðurlandi (Valkostaskýrsla, október 2017)