UMÍS ehf. Environice er fyrirtæki sem veitir ráðgjöf um umhverfismál og sjálfbæra þróun. Það var stofnað árið 2000 af Stefáni Gíslasyni umhverfisstjórnunarfræðingi.
Fyrirtækið er staðsett á Hvanneyri og þar starfa nú tveir sérfræðingar sem veita ráðgjöf um hvaðeina sem snýr að umhverfismálum, jafnt til einstaklinga, fyrirtækja og stjórnvalda. Lögð er áhersla á persónulega og faglega þjónustu, enda er ekki til nein ein aðferð eða ein lausn sem hentar öllum. Hlutverk starfsmannanna er að finna bestu lausnina á hverjum tíma í samvinnu við viðskiptavininn.
Sjálfbær þróun er höfð að leiðarljósi í allri vinnu Environice. Málin eru skoðuð í víðu samhengi og mikil áhersla lögð á heildarsýn og þverfaglega hugsun, enda ekki hægt að leysa vandamál með sama hugarfari og þau voru búin til með, svo vitnað sé í Albert Einstein.
Umhverfismál snúast ekki bara um tæknilegar lausnir. Þau snúast ekki síður um stjórnun, hugarfar og aðra mannlega þætti. Starfsfólk Environice hefur sérhæft sig í að sjá samhengið þarna á milli.